Um aga og tillitssemi

Á DÖGUNUM las ég athyglisverða forystugrein í Morgunblaðinu um agaleysi í íslensku þjóðfélagi. Tilefni greinarinnar var meðal annars ofbeldisfull árás tveggja stúlkubarna á stallsystur sína. Ég er greinarhöfundi mjög sammála en ég vildi gjarnan bæta því við að agaleysinu fylgir ábyrgðarleysi sem ég held að sé áberandi í íslensku þjóðfélagi og ég geng meira að segja svo langt að halda því fram að ábyrgðarleysið sé hér meira en í mörgum öðrum þjóðfélögum. En þessu þarf ég að færa rök fyrir.

Fréttin sem greindi frá árás fyrrgreindra stúlkna sagði að stúlkunum hefði verið sleppt eftir yfirheyrslu. Þetta getur varla verið rétt. Þar sem stúlkurnar voru undir lögaldri hafa foreldrar væntanlega verið kallaðir til og stúlkurnar verið afhentar þeim til forsjár. Alla vega hljóta foreldrarnir að bera skaðann sem stúlkurnar hafa valdið. Hér er fréttin of stutt og vekur þá hugmynd hjá sumum að ekkert gerist þegar ofbeldisverk eru framin. Unglingar sem lesa svona frétt fá að minnsta kosti auðveldlega þessa hugmynd. Það er nauðsynlegt verkefni fyrir fjölmiðla að halda áfram að upplýsa almenning um hvað verður um gerendur ofbeldisverka, hvaða refsingu þeir fá, hvaða meðferð þeir fá og hvað verður um þá síðar. Ég hef það á tilfinningunni að þess háttar sé einungis efni í vísindalegar ritgerðir félagsfræðinga og þá eru einstakir atburðir horfnir inn í nafnlausa tölfræði.

Ég sakna þess á Íslandi að enginn blaðamaður virðist hafa tekið að sér að skrifa greinar úr dómssölum um réttarhöld í sakamálum. Hér á ég ekki við fréttir í símskeytastíl um ásakanir og vörn heldur fræðslu lesandans um það sem gerist í dómssal, hvernig dómurinn reynir að nálgast sannleikann og hvernig hann reynir að skilja hugarheim þess ákærða. Þekking og skilningur almennings á réttarfari er held ég ein af forsendum þess að menn fari að lögum. Erlendis hafa fréttamenn orðið frægir af fræðandi skrifum sínum um sakamál. Er ekki metnaðarfullt blaðafólk líka til á Íslandi?

En aga og ábyrgðarkennd er ábótavant á mörgum sviðum hins daglega lífs. Í umferðinni gerast slys oft vegna þess að menn neita að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Sá sem fer fram úr bíl verður að vita að hann ber einn ábyrgð á því hvort framúraksturinn tekst slysalaust eða ekki. Mér finnst umferðin á Íslandi ekki mjög hröð og alls ekki mikil miðað við önnur lönd en hún er óvenjulega tillitslaus og þjösnaleg. Menn aka oft þétt upp að bílnum fyrir framan og nota jafnvel flautu til að fá hann til að víkja út á kantinn svo að hægt sé að fara fram úr. Í Þýskalandi varðar slíkt framferði afar þungum sektum og getur valdið því að gerandi verði dæmdur meðsekur ef bílnum sem þröngvað er hlekkist á. Hér virðast menn mjög ómeðvitaðir um þá hættu sem þeir skapa með frekjunni.

Það er grátlega algengt að ökumenn beri enga virðingu fyrir gangandi fólki. Það er mjög algengt í Reykjavík að bílum sé lagt á gangstéttir og oft þvert á þær þannig að útilokað er að gangandi fólk komist framhjá, ég tala nú ekki um fólk með barnavagn eða fatlaða. Ef snjór er á götum er það undantekning að húsráðendur sem búa við götuna telji sér það viðkomandi og láti sér detta í hug að moka hann í burtu. Þó veit ég ekki betur en að húsráðendur beri ábyrgð á að gangstéttin fyrir framan hús þeirra sé ekki hættuleg. Ökumenn nota sér tækifærið og leggja bílum sínum gjarnan á miðjan slóðann sem myndast hefur á gangstéttinni af gangandi fólki svo að hættan á að þeir festi bílinn í snjónum sé minni. Að slóðinn sé ekki fyrir þá kemst ekki inn í heilann á þessum ökumönnum.

En Reykjavíkurborg er ekki barnanna best. Þegar snjór fellur er fljótt byrjað á mokstri svo að bílarnir komist leiðar sinnar. Gangstéttirnar mæta afgangi. Verst eru þó þeir staddir sem nota strætisvagna. Það dettur engum í hug að moka við biðstöðvar strætisvagna. Þvert á móti er það vinsælt að láta snjóinn af akbrautinni mynda háan garð fyrir framan biðstöðina þannig að farþegarnir verði næstum að klífa fjall til að komast inn í vagninn. En þetta er auðvitað allt í lagi því að í augum margra eru þeir sem nota strætisvagna hallærislegir og því ekki ástæða til að taka tillit til þeirra.

Höfundur er framhaldsskólakennari.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og fimmtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Reynir Vilhjálmsson

Höfundur

Reynir Vilhjálmsson
Reynir Vilhjálmsson
Höfundur er eðlis-efnafræðingur og framhaldsskólakennari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband